Erlent

Vill lögleiða kannabisefni til verndar táningum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Það er álit rannsóknarnefndar um unglingadrykkju í Ástralíu að kannabisefni séu skárri kostur en áfengi.Myndin tengist frétt ekki beint.
Það er álit rannsóknarnefndar um unglingadrykkju í Ástralíu að kannabisefni séu skárri kostur en áfengi.Myndin tengist frétt ekki beint. MYND/GETTY
Robin Room, forstöðumaður rannsóknarnefndar um áfengisdrykkju unglinga í Ástralíu hefur kallað eftir því að kannabisefni verði lögleidd í þeim tilgangi að draga úr skaðsemi unglingadrykkju. Mælst er til þess að þetta verði gert undir ströngu eftirliti. Er það mat nefndarinnar að áfengisneysla valdi mun meiri félagslegum skaða en neysla kannabisefna.

Room sagði í viðtali við Herald Sun að af ef 18 ára táningur kysi að nota einhverskonar efni sem valda vímu sé marijúana skásti kosturinn. Minni líkur séu á að fólk lendi í vandræðum eftir að hafa reykt það heldur en eftir að hafa neytt áfengis.

Jafnframt sagði hann að táningarnir væru jafnvel betur settir ef þeir neyttu áfengis í bland við kannabisefni. Hreint áfengi sé mun hættulegra en kannabis þar sem rannsóknir hafi sýnt fram á bein tengsl áfengisneyslu við árásarhneigð, ofbeldi, tap á samhæfingu og áhrif á bæði vinnu og fjölskyldulíf.

„Kannabisefni eru ekki skaðlaus en ef við lítum á stóru myndina valda þau minni félagslegum skaða en áfengi og tóbak,“ sagði Room meðal annars í viðtalinu.

Yrði lögleiðing kannabisefna í Ástralíu að veruleika myndi það vera gert undir eftirliti. Efnið yrði ekki seld í matvörubúðum líkt og áfengi þar í landi, heldur yrði sölunni stjórnað í ríkisreknum verslunum. Þá yrði ekki leyfilegt að auglýsa kannabisefni í sjónvarpi eða á íþróttaleikjum.



Nánar á Herald Sun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×