Erlent

Fulltrúar frá Amnesty International á fund Snowden

Jóhannes Stefánsson skrifar
Edward Snowden situr nú fund á alþjóðaflugvellinum í Mosvku með fulltrúum ýmissa mannréttindasamtaka. Snowden hefur haldið því fram að Bandaríkjastjórn beiti sér á ólögmætan hátt gegn því að hann fái griðarstað.

Hann segir að brotið sé á 14. gr. Mannréttindayfirlýsingu sameinuðu þjóðanna gegn sér, en greinin kveður á um að „allir eiga rétt til að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum," eins og segir í 1. mgr. greinarinnar.

Snowden segir þær þjóðir sem hafa boðið honum hæli hafa „öðlast virðingu í samfélagi þjóðanna með það að standa fast á gildum sínum þrátt fyrir hótanir." Hann heldur því fram að Bandaríkin hafi leynt og ljóst hótað hverjum þeim sem muni veita honum hæli að samskipti viðkomandi ríkis við Bandaríkin muni bíða alvarlega hnekki.

Á fundinum kom fram að Snowden hyggst sækjast eftir hæli í Rússlandi til að byrja með en hann mun svo reyna að komast tið einhverra þeirra Suður-Ameríkuríkja sem hafa boðið honum hæli.

Hér má sjá framvindu fundarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×