Erlent

Verðandi Íransforseti gagnrýnir forvera sinn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hasan Rúhani tekur brátt við af Mahmúd Ahmadínedjad.
Hasan Rúhani tekur brátt við af Mahmúd Ahmadínedjad. Mynd/AP
Hasan Rúhani, sem tekur við sem Íransforseti í næsta mánuði, gagnrýnir forvera sinn harðlega og segir efnahagsástandið í landinu mun verra en Mahmúd Ahmadínedjad hefur gefið til kynna.

Rúhani segir að verðbólgan sé komin í 42 prósent en ekki 32 prósent, eins og gengið hefur verið út frá. Þá segir hann að á árunum 2006 til 2012 hafi aðeins 14 þúsund ný störf orðið til í landinu, sem stangast mjög á við yfirlýsingar Ahmadínedjads um að stjórn hans hafi skapað hundruð þúsunda starfa frá því hann tók við árið 2005.

Það er fréttastofan AP sem skýrir frá þessu.

Rúhaní hafði verið iðinn við að gagnrýna Ahmadínedjad á síðustu árum, meðal annars fyrir að fá erlend ríki upp á móti sér.

Alþjóðlegar refsiaðgerðir hafa bitnað illa á almenningi í landinu. Refsiaðgerirnar hafa verið lagðar á vegna kjarnorkuáforma íranskra stjórnvalda, en Ahmadínedjad hefur jafnan þvertekið fyrir að hann hafi haft í hyggju að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Á sunnudag hitti Rúhani þingmenn að máli og hvatti þá til að vinna með sér að því að vinna bug á þessum miklu erfiðleikum, sem landið á nú við að stríða.

„Í dag glímir landið við flókið og erfitt ástand, og það stafar að hluta af stefnu innlendra stjórnvalda en að hluta af ósanngjörnum þrýstingi að utan,” sagði Rúhani.

Óvíst er hvað Ahmadinedjad tekur sér fyrir hendur eftir forsetaskiptin, sem verða í næsta mánuði. Ólíklegt þykir að hann muni láta lítið fyrir sér fara, þótt hann verði ekki forseti lengur.





Guðsteinn Bjarnason



Fleiri fréttir

Sjá meira


×