Erlent

Sjö manns létu lífið í átökum í Kaíró í nótt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Átök í Kaíró í nótt.
Átök í Kaíró í nótt. Mynd/AP
William Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin styðji hvorki stjórn né stjórnarandstöðu í Egyptalandi. 

Þrátt fyrir það sagði hann í gær, í heimsókn sinni til Egyptlands, að eftir stjórnarbyltingu hersins fyrr í mánuðinum hafi Egyptar fengið „annað tækifæri til að koma á lýðræði.”

Hörð átök brutust út í mótmælum í Kaíró í nótt og kostuðu þau sjö manns lífið. Fjöldi fólks hafði safnast saman í gær á meðan á heimsókn Burns stóð til að mótmæla nýju bráðabirgðastjórninni, sem herinn kom til valda eftir að hafa steypt Múhamed Morsi forseta af stóli.

Bráðabirgðastjórnin hefur kynnt áform sín um hraða endurskoðun stjórnarskrárinnar og bæði þing- og forsetakosningar snemma á næsta ári.

Stuðningsmenn Morsis sætta sig hins vegar engan veginn við þessi áform, krefjast þess að hann fái forsetaembættið á ný, og benda á að hann var kosinn í lýðræðislegum kosningum á síðasta ári.

Bandaríkin krefjast þess að Morsi verði látinn laus úr stofufangelsi. Þau hafa hins vegar ekki gengið svo langt að kalla valdatöku hersins valdarán, sem hefði þýtt að fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum til Egyptalands upp á 1,5 milljarð dala yrði afturkölluð þetta árið. 

Burns er hæst setti fulltrúi Bandaríkjanna, sem heimsótt hefur Egyptaland eftir stjórnarskiptinn. Hann átti fundi bæði með yfirmanni hersins, Abdel Fattah al Sísí, og þeim Adlí Mansúr forseta, Hasem al Beblaví forsætisráðherra.

Fyrir viku létu 50 manns lífið í átökum í Kaíró.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×