Erlent

Snowden hefur sótt um tímabundið hæli í Rússlandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Snowden í Moskvu fyrir helgi ásamt fulltrúa Wikileaks og þýðanda.
Snowden í Moskvu fyrir helgi ásamt fulltrúa Wikileaks og þýðanda. Mynd/AP
Anatólí Kútsjerena, lögmaður Edward Snowdens í Rússlandi, segir að hann hafi í morgun sent inn formlega umsókn um tímabundið hæli í Rússlandi.

Bæði Wikileaks og rússnesk innflytjendayfirvöld hafa staðfest þetta. Samkvæmt rússneskum lögum ber að svara umsókninni ekki síðar en innan þriggja mánaða.

Tímabundið hæli í Rússlandi gildir í eitt ár, en getur verið framlengt um ár í senn.

Kútsjerena segir hann „sæta ofsóknum af hálfu bandarískra stjórvalda og óttast um bæði líf sitt og öryggi, óttast að hann geti þurft að þola pyntingar og eigi yfir höfði sér dauðarefsingu.”

Þetta sagði Kútsjerena í viðtali á rússnesku sjónvarpsstöðinni Rossíja 24, að því er fram kemur í fréttaskeyti frá AP fréttastofunni.

Snowden lak í fjölmiðla upplýsingum um víðtækar njósnir bandarískra stjórnvalda með bæði net- og símaskiptum fólks, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur um heim allan.

Bandarísk yfirvöld vilja að hann verði framseldur til Bandaríkjanna svo hægt sé að lögsækja hann fyrir lögbrot.

Fái Snowden tímabundið hæli í Rússlandi verður honum frjálst að ferðast um landið. Kútsjerena segir að hann hafi engin áform um að fara frá Rússlandi í bráðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×