Erlent

Sleppa ekki lengur við herþjónustu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ósáttir við herþjónustuna.
Ósáttir við herþjónustuna. Mynd/AP
Strangtrúargyðingar í Ísrael eru afar ósáttir við nýjar reglur sem skylda þá til herþjónustu eins og aðra. Töluverð spenna er í samfélaginu vegna þessa.

Ísraelska stjórnin samþykkti í síðustu viku að ungir gyðingar, sem skráðir eru til náms í trúarfræðum, eigi ekki að njóta lengur undanþágu frá herþjónustu, eins og tíðkast hefur árum saman.

Breytingin á að gerast í áföngum, samkvæmt hugmyndum eins stjórnarflokkanna, Yesh Atid. Ráðherrann Yaakov Peri, sem undirbjó löggjöfina, segir þessa ákvörðun sögulega.

Málið hefur lengi verið umdeilt í Ísrael, og niðurstaðan virðist ætla að valda háværum deilum.

Strangtrúargyðingar eru um 8 prósent þjóðarinnar, eða ríflega 600 þúsund manns. Ungir karlmenn úr þessum hópi leggja stund á trúarnám, og þeir sem eldri eru verja margir hverjir ævinni í fræðistörf og fá til þess styrk frá ríkinu.

Aðrir íbúar eru margir hverjir afar ósáttir við þetta fyrirkomulag og Benjamín Netanjahú forsætisráðherra hefur viljað breyta þessu, en ekki getað vegna þess að hann hefur verið háður stuðningi nokkurrs smáflokka strangtrúargyðinga á þingi.

Þetta breyttist í síðustu kosningum. Nýju lögin hafa enn ekki verið samþykkt á þingi og hafa strangtrúargyðingar hótað uppreisn ef þetta verður niðurstaðan. Segja að sumir muni frekar vilja fara í fangelsi en að sinna herþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×