Erlent

„Afsakið allt blóðið“ - Óhugguleg saga Mayhem

Áður en fyrsta breiðskífa sveitarinnar kom út hafði Dead (fyrir miðju) framið sjálfsmorð og Vikernes (til hægri) myrt Euronymous (til vinstri) með því að stinga hann tuttugu og þrisvar sinnum með hníf.
Áður en fyrsta breiðskífa sveitarinnar kom út hafði Dead (fyrir miðju) framið sjálfsmorð og Vikernes (til hægri) myrt Euronymous (til vinstri) með því að stinga hann tuttugu og þrisvar sinnum með hníf.
Fréttablaðið fjallaði um blóði drifna sögu hljómsveitarinnar Mayhem árið 2007, en fyrrverandi bassaleikari sveitarinnar, Kristian „Varg“ Vikernes, var handtekinn í gær vegna gruns um að hafa skipulagt hryðjuverk.

Áður en fyrsta breiðskífa sveitarinnar kom út hafði söngvarinn framið sjálfsmorð, gítarleikarinn verið myrtur og bassaleikarinn Vikernes fangelsaður fyrir morðið. Vísir endurbirtir þessa óhuggulegu grein eftir Salvar Þór Sigurðsson.




Norska hljómsveitin Mayhem er ein elsta og frægasta svartmálmshljómsveit sögunnar. Réttara væri að kalla hana alræmda frekar en fræga, þar sem hún er töluvert betur þekkt fyrir þá hræðilegu atburði sem gerðust utan hljóðversins en tónlistina sem var tekin upp innan þess.

Hjá Mayhem voru textar um dauða og djöfulinn ekki látalæti heldur fúlasta alvara og hljómsveitarmeðlimir máluðu sig ekki hvíta í framan til að fela andlit sín heldur til að líta út eins og lík. Í huga þeirra bjó djúpt og raunverulegt hatur á kristinni trú og mikill áhugi á öllu sem dauðanum tengdist.

Svartasti svartmálmur

Saga Mayhem hófst þegar Øystein Aarseth gítarleikari, sem kallaði sig Euronymous, stofnaði hljómsveitina árið 1984 með bassaleikaranum Jørn Stubberud, sem gekk undir nafninu Necrobutcher, og trommaranum Kjetil Manheim. Stuttu síðar bættist söngvarinn Sven Erik Kristiansen, eða Maniac, í hópinn.

Algengt er að meðlimir svartmálmshljómsveita gangi undir gælunöfnum frekar en sínum eigin, og eru þau oft einhvers konar vísun í dauða eða ofbeldi.

Mayhem spilaði mjög þunga og drungalega rokktónlist þar sem textarnir fjölluðu flestir um morð, kirkjubrennur, djöflatrú og gróft ofbeldi. Sveitin naut fljótt vinsælda innan svartmálmssenunnar í Noregi sem var þá í fæðingu.

Fyrsta smáskífa Mayhem, Deathcrush, kom út árið 1987 og seldist upp. Tveir hljómsveitarmeðlimir áttu þó eftir að deyja og sá þriðji fangelsaður áður en fyrsta plata sveitarinnar í fullri lengd kom út.

Dauðinn kemur

Ári eftir útgáfu fyrstu smáskífunnar urðu mannabreytingar í Mayhem. Manheim yfirgaf hljómsveitarlífið til að fá sér "alvöru vinnu" og Maniac var lagður inn á geðdeild eftir misheppnaða sjálfsmorðstilraun. Í stað þeirra komu trommarinn Jan Axel Blomberg, eða Hellhammer, og söngvarinn Per Yngve Ohlin sem kallaði sig Dead.

Eins og gælunafnið gefur til kynna var Dead heltekinn af dauðanum og öllu sem honum tengdist. Hann var mjög þögull og þunglyndislegur, talaði um fátt annað en dauðann og málaði sig hvítan í framan til að líta út eins og liðið lík.

Sem dæmi um ást Dead á dauðanum átti hann það til að grafa fötin sín í jörðu nokkrum vikum fyrir tónleika, til þess að ná fram raunverulegri rotnunarlykt og útliti á sviðinu. Þar skar hann sig síðan oft með hnífum, glerbrotum og öðru lauslegu á meðan á tónleikum stóð. Svo langt gekk hann á einum tónleikum árið 1990 að hann var fluttur á slysadeild að tónleikunum loknum vegna blóðmissis.

Við hljómsveitarmeðlimi ræddi Dead mikið um það hve mikið hann langaði til að yfirgefa þetta líf og taka dauðanum opnum örmum. Það kom því fáum á óvart þegar hann fannst árið 1991 látinn á gólfinu í plötubúðinni Helvete, sem var í eigu Euronymous, með skurði á úlnliðum og skotsár á höfðinu eftir haglabyssu.

Í sjálfsmorðsbréfi sem fannst við hliðina á honum stóð: "Afsakið allt blóðið."

Viðbrögð Euronymous, sem kom fyrstur að líki Dead, voru ekki að hringja á lögreglu eða sjúkrabíl heldur keypti hann einnota myndavél í næstu verslun og tók myndir af líkinu. Þær voru síðan notaðar á umslag plötunnar Dawn of the Black Hearts, sem kom út sama ár. Sagan segir að hann hafi að auki safnað saman höfuðkúpubrotum Dead og búið til hálsmen úr þeim, en sá orðrómur hefur ekki verið staðfestur.

Vegna þess hve Dead var hugfanginn af dauðanum var hann ekki syrgður heldur dauði hans upp hafinn. "Þetta er það besta sem Dead hefur nokkru sinni gert," sagði Euronymous stuttu eftir sjálfsmorðið, og átti með því við að honum hefði loksins tekist ætlunarverk sitt ? að deyja.

Tuttugu og þrjár hnífsstungur

Dauði Dead fékk svo á Necrobutcher að hann hætti í Mayhem og upptökum á fyrstu plötu þeirra í fullri lengd, De Mysteriis Dom Sathanas, var frestað. Eftir nokkra leit fengu þeir hinn ungverska söngvara Attila Csihar til að syngja á plötunni, og í stað Necrobutcher kom bassaleikarinn Varg Vikernes.

Vikernes, sem var þekktur fyrir ofbeldishneigð og öfgakenndar skoðanir, hafði ekki verið lengi í hljómsveitinni þegar deilur upphófust milli hans og Euronymous. Þær snerust fyrst og fremst um peninga, en Euronymous hafði fengið um 300.000 krónur lánaðar hjá Vikernes vegna plötuútgáfu og neitað að greiða honum aftur. Mennirnir hnakkrifust oft vegna þessa, og líkaði almennt illa hvor við annan.

Hinn 10. ágúst 1993 fór Vikernes heim til Euronymous í Ósló, ásamt félaga sínum Snorre Westvold, og stakk Euronymous tuttugu og þrisvar sinnum með hníf; tvisvar í höfuðið, fimm stungur í hálsinn og sextán í bakið. Að því loknu fór hann aftur til síns heima.

Nokkrum dögum síðar var Vikernes handtekinn og ákærður fyrir morðið á Euronymous. Hann bar fyrir sig sjálfsvörn og sagði flest stungusárin hafa orðið þegar Euronymous datt á glerbrot. Dómurinn tók útskýringar Vikernes ekki trúanlegar og dæmdi hann til 21 árs fangelsisvistar. Hann situr í fangelsi í Tromsø í dag.

Trommarinn Hellhammer var nú eini eftirstandandi meðlimurinn í Mayhem, og lagði hljómsveitina niður stuttu eftir dauða Euronymous. Upptökum á fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar, De Mysteriis Dom Sathanas, var þá að mestu lokið og var hún formlega tileinkuð Euronymous, stofnanda hljómsveitarinnar.

Um tíma var óvíst hvort platan kæmi út því fjölskylda Euronymous beitti sér gegn því að bassaleikur Vikernes heyrðist á plötunni. Hellhammer fór ekki að beiðni þeirra og gaf plötuna út árið 1994 með óbreyttum bassa.

De Mysteriis Dom Sathanas, þar sem morðinginn og fórnarlambið spila saman, er ein allra frægasta svartmálmsplata sögunnar í dag.

Endurreisn Mayhem

Hin eiginlega Mayhem, oftast kölluð "The True Mayhem" af aðdáendum, var dáin og grafin í bókstaflegri merkingu. Þrátt fyrir það ákvað Hellhammer að endurreisa sveitina tveimur árum eftir dauða Euronymous, og fékk til liðs við sig gömlu félagana Maniac og Necrobutcher auk gítarleikarans Rune Erickson, kallaður Blasphemer.

Þessi skipan entist fram til ársins 2004, þegar Maniac var rekinn úr hljómsveitinni og Attila Csihar var aftur ráðinn söngvari. Á þessu tímabili gaf hljómsveitin út tvær plötur í fullri lengd; Grand Declaration of War árið 2000 og Chimera árið 2004. Þær hlutu blendnar viðtökur; hljómurinn þótti hafa fjarlægst rætur Mayhem of mikið.

Í apríl á þessu ári kom út síðasta plata Mayhem til þessa, Ordo ad Chao. Hún fékk betri dóma en plöturnar tvær á undan, og komst í tólfta sæti norska hljómplötulistans.

Sannir aðdáendur Mayhem hafa þó aldrei tekið þessar síðari útgáfur hljómsveitarinnar í sátt, enda vantar stofnandann Euronymous, kristnihatarann og morðingjann Varg Vikernes og síðast en ekki síst dauðadýrkandann Dead.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×