Erlent

Banameinið var skordýraeitur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Eru að ná sér á sjúkrahúsinu í Patna.
Eru að ná sér á sjúkrahúsinu í Patna. Nordicphotos/AFP
Með krufningu hefur verið staðfest að það var skordýraeitur sem varð 22 börnum að bana í Patna á Indlandi á þriðjudag.

Börnin, sem voru á aldrinum 8 til 11 ára, létu lífið eftir að hafa matast í skólanum. Talið er að eitrið hafi annað hvort verið í matnum eða matarolíunni, sem notuð var við matseldina.

25 önnur börn veiktust heiftarlega og skólakokkurinn veiktist einnig. Þau eru öll að ná sér á sjúkrahúsi í Patna og verður ekki meint af til frambúðar, að sögn Amarkant Jha Amars, sem er yfirlæknir á sjúkrahúsinu: „Áhrif eitrunarinnar munu skolast út úr líkamanum eftir ákveðinn tíma,” hefur AP fréttastofan eftir lækninum.

Mikil reiði ríkir í héraðinu vegna málsins og brutust út óeirðir í gær.

Indversk stjórnvöld hafa allt frá sjöunda áratug síðustu aldar lagt áherslu á að fátæk skólabörn fái ókeypis heita máltíð að minnsta kosti einu sinni á dag. Þetta er gert til að hvetja foreldra þeirra til að senda börnin frekar í skóla en að láta þau vinna fyrir sér.

Maturinn er jafnan eldaður á staðnum og þótt stundum hafi verið kvartað undan gæðum matarins, þá er þetta í fyrsta sinn sem svo alvarlegrar matareitrunar verður vart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×