Erlent

Falinn hljóðnemi fannst í sendiráði Ekvador

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Julian Assange hefur haldið til í sendiráði Ekvador í London í meira en ár. Utanríkisráðherra Ekvador greindi frá því í gær að falinn hljóðnemi hafi fundist í sendiráðinu á dögunum.
Julian Assange hefur haldið til í sendiráði Ekvador í London í meira en ár. Utanríkisráðherra Ekvador greindi frá því í gær að falinn hljóðnemi hafi fundist í sendiráðinu á dögunum. MYND/AFP
Falinn hljóðnemi fannst í sendiráði Ekvador  í London, en þar hefur Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, dvalið í meira en ár. Þessu greindi Ricardo Patiño, utanríkisráðherra Ekvador, frá í gær.

Búnaðurinn fannst fyrir tveimur vikum síðan inni á skrifstofu sendiherra Ekvadors, Ana Alban, og talið er  fullvíst að um hlerunartæki sé að ræða. Ekki er vitað með vissu hver kom hljóðnemanum inn í sendiráðið, hversu lengi hann hefur verið þar  eða hver tilgangur hans var. Ricardo Patiño sagði uppgötvun hljóðnemans vera mikil vonbrigði og bera vott um siðferðisskort af hálfu þess sem kom honum fyrir.

Sendiráð Ekvador skaut skjólhúsi yfir Assange fyrir meira en ári síðan, en ef hann stígur fæti út fyrir sendiráðið verður hann að öllum líkindum framseldur til Svíþjóðar þar sem hann er sakaður um kynferðisbrot gegn tveimur konum. Hann ætti svo á hættu að vera framseldur til Bandaríkjana frá Svíþjóð fyrir að leka trúnaðarupplýsingum bandarískra yfirvalda til almennings í gegnum WikiLeaks.

Samskipti Ekvador og Bretlands hafa verið stirð síðan sendiráðið veitti Assange pólitískt hæli, en samningaviðræður um málið hafa engan árangur borið. Það lítur því út fyrir að Assange muni dveljast í sendiráðinu um ókomna tíð. Ricardo Patiño sagði á blaðamannafundi á dögunum að meðhöndlun máls Assange væri „algerlega óréttlát,“ en tugir breskra lögreglumanna halda til fyrir utan sendiráðið allan sólarhringinn.

The Guardian greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×