Erlent

Tveir látnir eftir berserksgang hnífamanns í Svíþjóð

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Lögreglan skaut manninn í miðbæ Varberg í dag.
Lögreglan skaut manninn í miðbæ Varberg í dag. Mynd/Aftonbladet
Maður vopnaður hnífi gekk berserksgang í bænum Varberg í Svíþjóð í dag. Maðurinn, sem er 24 ára, stakk tvo menn og eina konu, en konan lést af sárum sínum. Hún var 85 ára. 

Lögreglan yfirbugaði árásarmanninn en þegar hann neitaði að losa sig við hnífinn skaut hún manninn. Hann lést á sjúkrahúsi af sárum sínum. 

„Hann vildi ekki sleppa hnífnum. Við hleyptum af viðvörunarskotum en svo urðum við að grípa til örþrifaráða,“ sagði yfirlögregluþjónn Halland-lögreglunnar í dag. 

Það var um klukkan 10 í morgun að lögreglan í Varberg fékk tilkynningu um að maður hefði verið stunginn úti á miðri götu í bænum. Þegar lögreglan mætti á vettvang kom í ljós að fórnarlömbin voru fleiri og um klukkustund síðar kom önnur tilkynning um hnífsstungu, þá innanhúss. Þar hafði 18 ára strákur verið stunginn á heimili sínu á meðan hann svaf. 

„Nágrannar mínir sögðu að það væri strákur með hníf sem hljóp um og tók í hurðarhúna. Ég heyrði að hann hefði stungið aldraða konu og strák sem lá sofandi í rúmi sínu,“ sagði vitni við sænska blaðið Aftonbladet í morgun. 

72 ára gömul kona sem býr í götunni var óttaslegin. „Þetta var rosalegur sunnudagsmorgunn. Skyndilega heyrast skothvellir, í litlu götunni okkar. Það var skotið, lögreglan hrópaði og kallaði og þyrla sveimaði fyrir ofan húsið. Þetta var eins og sirkus.“ 

Ástæða árásarinnar er óljós en lögreglan leitar enn vitna að atburðarrásinni. Ingrid Ljuggren, sem stýrir rannsókn lögreglu, segir að ekkert bendi til þess að árásarmaðurinn hafi þekkt fórnarlömbin.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá frétt Aftonbladet um málið. Við vörum viðkvæma við myndbandi sem þar má finna. Í myndbandinu má sjá lögreglu skjóta manninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×