Erlent

Snowden ákærður fyrir njósnir

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ákært uppljóstrarann Edward Snowden fyrir njósnir og hafa farið þess á leit við yfirvöld í Hong Kong að hann verði handtekinn. Það er blaðið Washington Post sem greinir frá þessu á vefsíðu sinni í kvöld.

Snowden lak upplýsingum um umfangsmikla hlerun bandarískra stjórnvalda á internetinu og upplýsti meðal annars að stjórnvöld fylgist grannt með því hvað fólk gerir á internetinu og hafi nánast beinan aðgang að netþjónum stórfyrirtækja á borð við Google og Facebook. Hann hefur farið huldu höfði í Hong Kong síðustu vikur.

Á vefsíðu Washington Post segir að handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur honum af dómstóli í Virginíu en hann hefur meðal annars verið ákærður fyrir njósnir og þjófnað. Framsalssamningur er í gildi á milli Bandaríkjanna og Hong Kong en ekki er ljóst hvar í Hong Kong hann dvelur.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að þota í eigu fyrirtækis í Kína hefur verið tekin á leigu af aðilum tengdum Wikileaks til að flytja Snowden til Íslands. Hann hefur lýst yfir áhuga að fá pólitískt hæli hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×