Erlent

Brandarinn var svo óviðeigandi að hann gæti valdið réttarspjöllum

Jóhannes Stefánsson skrifar
Fjölskylda Trayvon Martin var viðstödd réttarhöldin
Fjölskylda Trayvon Martin var viðstödd réttarhöldin Mynd/ AFP
Lögmaður George Zimmerman sagði vandræðalegan og óviðeigandi brandara við réttarhöldin sem gætu leitt til þess að hefja þyrfti málaferlin upp á nýtt. Zimmerman er ákærður fyrir að hafa skotið og myrt hinn 17 ára og þeldökka Trayvon Martin er hann var gangandi heim úr kjörbúð.

Lögmaðurinn heitir Don West og sagði brandarann í upphafi málflutningsræðu sinnar fyrir framan fjölskyldu og ættingja hins látna.

Málið á hendur Zimmerman hefur vakið gríðarlega fjölmiðlaathygli vestanhafs, en brandarinn á rætur sínar að rekja til þess að mjög erfitt reyndist að finna kviðdómendur í málið sem þekktu ekki til þess vegna umfjöllunarinnar.

Brandarinn var svohljóðandi:

„Bank bank."

„Hver er þar?"

„George Zimmerman."

„Hvaða George Zimmerman?"

„Allt í lagi, gott. Þið eruð semsagt í kviðdómnum."

Alan Dershowitz, sem er frægur bandarískur lögmaður, sagði við CNN að Zimmerman ætti að bera það upp við dómarann í málinu að lögmaður hans hefði verið svo óviðeigandi í orðum sínum að réttast væri að hefja málið að nýju. Dershowitz sagði að brandarar af þessu tagi ættu alls ekki heima í morðmálum og þá sérstaklega ekki ef fjölskylda fórnarlambsins væri viðstödd.

Nánar er sagt frá málinu á Fox News, en það er einnig rætt í meðfylgjandi myndbandi:

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×