Erlent

Borin út úr tréhúsi sínu

Heimir Már Pétursson skrifar
Það eru ekki bara milljónir fullorðinna Bandaríkjamanna sem standa frammi fyrir því að vera bornir út af heimilum sínum vegna fasteignaskulda, því átta ára stúlka í bænum Emerson í New Jersey í Bandaríkjunum liggur undir hótunum að vera borin út úr tré-húsi sínu og að húsið verði rifið.

Foreldrar Katie Tenebruso hjálpuðu henni að byggja ansi veglegt hús uppi í tré í garði við hús fjölskyldunnar og gáfu henni það í afmælisgjöf í fyrra. Kostnaðurinn við bygginguna nam tæpum átta hundruð þúsund krónum. Katrie kann ákaflega vel við sig í tré-húsinu þar sem hún býður vinkonum sínum reglulega til te-drykkju og annarra samkvæma.

En nágranni hennar, sem kalla mætti Fúla á móti, er ekki eins ánægður með tré-húsið og Katie og hefur farið fram á það við skipulagsyfirvöld að húsið verði rifið, vegna þess að það sé byggt of hátt uppi í trénu. Paula móðir hennar segist hafa hringt á bæjarstjórnarskrifstofurnar áður en húsið var byggt og fengið þau svör að engin sérstök lög giltu um byggingu tré-húsa í bænum.

Málið var tekið fyrir í bæjardómi á í gær þar sem dómari gaf fjölskyldunni frest fram í næsta mánuð til að afla leyfa, því þrátt fyrir allt gilda reglugerðir um byggingar sem ná hærrra en 4,6 metra frá jörðu, en tré-hús Katie nær allt að 5,8 metra í loft upp. Fjöldi nágranna hefur lýst yfir stuðningi við Katie og vill koma í veg fyrir að hún verði flæmd úr tré-húsinu og það rifið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×