Erlent

Segjast munu nota hervald á mótmælendur

Jóhannes Stefánsson skrifar
Mótmælin í Tyrklandi hafa staðið yfir í um þrjár vikur.
Mótmælin í Tyrklandi hafa staðið yfir í um þrjár vikur. AFP
Tyrknesk stjórnvöld segja að það komi til greina að kalla til herinn til að binda enda á þriggja vikna mótmæli þar í landi.

Viðvörunin var gefin í kjölfar þess að tvö stór verkalýðsfélög efndu til verkfalls til að mótmæla lögregluofbeldi sem beindist gegn mótmælendum.

Varaforsætisráðherra landsins, Bulent Arinc, sagði að lögregla myndi beita „öllum tiltækum ráðum" til að binda enda á mótmælin. „Ef það dugir ekki til getum við beitt tyrkneska hernum í borgunum," bætti Arinc við.

Ljóst er að ef af þessu verður er hætta á að mótmælin munu stigmagnast, en þau eru einhver stærsta hindrun sem hefur orðið á vegi ríkisstjórnar Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands.

Erdogan hefur haldið því fram að erlend öfl séu að baki mótmælunum í því skyni að grafa undan þarlendum stjórnvöldum. Erdogan hefur verið gagnrýndur fyrir það hvernig hann hefur tekið á mótmælunum.

Nánar er fjallað um málið á vef Al Jazeera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×