Erlent

Sendu hundaskítinn til síns heima

Heimir Már Pétursson skrifar

Bæjarastjórn í bænum Brunete skammt frá Madrid á Spáni var búin að fá sig fullsadda af hundaeigendum sem hirtu ekki upp skítinn á götum bæjarins eftir hunda sína.

Bæjarstjórnin greip til frumlegra aðgerða til að vinna bug á þessari meinsemd. Hún réð til sín tuttugu sjálfboðaliða sem fylgdust með hundaeigendum á götum bæjarins og þegar þeir urðu varir við að eigendurnir hirtu ekki upp stykkin eftir hundana tók þeir tal við þá og veiddu upp nöfn hundanna. Þannig tókst að hafa uppi á heimilisfangi eigenda hundanna í gegnum hundaskrá bæjarstjórnar.

Eftir að eigandinn var fundinn var skítnum úr hundi hans pakkað inn í plastpoka sem settur var í lítinn pappakassa með skjaldarmerki bæjarins og á kassann skrifað "tapað fundið". Síðan var farið heim til hundaeigandans og hann látinn kvitta fyrir móttöku skítsins. Það fylgir sögunni að þetta vikulanga tilraunarverkefni hafi skilað þeim árangri að hundaskítur á götum Brunete hafi minnkaði um 70 prósent.

Hægt er að sjá myndband frá þessari aðgerð hér og svipurinn á mörgum hundaeigandanum er óborganlegur þegar hann fær stykkin send heim til sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×