Erlent

Neitar sök í kynferðisbrotamáli

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Kaitlyn Hunt var handtekin þann 16. febrúar fyrir misnotkun.
Kaitlyn Hunt var handtekin þann 16. febrúar fyrir misnotkun.

Kaitlyn Hunt, átján ára gömul stúlka frá Flórída í Bandaríkjunum sem hefur verið ákærð fyrir að brjóta kynferðislega á fjórtán ára stúlku, hefur hafnað boði saksóknara um að játa á sig verknaðinn gegn vægari refsingu.

Forsaga málsins er sú að foreldrar fjórtán ára kærustu Hunt kærðu hana þegar upp komst um samband stúlknanna og var hún handtekin í kjölfarið þann 16. febrúar. Í fyrstu var talið að yngri stúlkan hefði verið fimmtán ára þegar sambandið hófst en það hefur verið dregið til baka.

Ef Hunt verður sakfelld fyrir brotin gæti hún átt allt að fimmtán ára fangelsisvist í vændum, en saksóknari bauð henni að játa og vera í stofufangelsi í tvö ár og á skilorði í eitt ár að því loknu. Þá hefði skilorðsfulltrúi hennar fengið aðgang að öllum upplýsingum um síma- og netnotkun Hunt. Þessu boði saksóknarans afþakkaði Hunt og er því ljóst að málið fer fyrir dómstóla.

Í yfirlýsingu frá lögmanni Hunt segir að um ástarsamband hafi verið að ræða þar sem báðir aðilar voru samþykkir. Ef málið hefði komið upp 108 dögum fyrr hefði Hunt verið sautján ára og hefði ekki gerst brotleg við nein lög. Og ef málið snerist um pilt og stúlku hefði málið ekki fengið neina athygli.

Áður hafði móðir Hunt sagt fjölmiðlum að foreldrar yngri stúlkunnar teldu að Hunt hefði snúið henni til samkynhneigðar.

Málið hefur vakið mikla athygli vestanhafs, og hafa netverjar hópast saman í stuðningi sínum við Hunt, þar á meðal aktívistasamtökin Anonymous, sem sendu frá sér tilkynningu til yfirvalda í Flórída.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×