Erlent

Um 150 þúsund mótmæla giftingum samkynhneigðra í París

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Lögregla er með mikinn viðbúnað á svæðinu.
Lögregla er með mikinn viðbúnað á svæðinu. Mynd/AFP

Um 150 þúsund mótmælendur eru saman komnir í París í dag til að mótmæla nýjum lögum sem heimila giftingar samkynja para. Lögregla er með mikinn viðbúnað á svæðinu.

Frakkland er níunda land Evrópu til þess að heimila giftingar samkynhneigðra og það fjórtánda á heimsvísu. En franska þjóðin er klofin í afstöðu sinni og Francois Hollande, forseti landsins, hefur sætt mikilli gagnrýni af andstæðingum laganna.

Jasques Myard, þingmaður franska íhaldsflokksins, segir í samtali við fréttastofu BBC að lögunum hafi verið þröngvað í gegn með valdi og að gjá sé milli yfirvalda og þjóðarinnar í málinu.

„Við getum ekki samþykkt þetta vegna barnanna,“ segir Myard. „Þetta fólk leikur Guð vegna þess að það vill giftast en þetta stoppar ekki þar. Síðan vill það ættleiða og þá verða börn í fjölskyldum þar sem er enginn faðir og engin móðir.“

Fyrr í vikunni svipti karlmaður um áttrætt sig lífi í Notre Dame-kirkjunni í París og er það talið hafa verið í mótmælaskyni vegna nýju laganna. Sá var þekktur sagnfræðingur og íhaldssamur þjóðernissinni. Í sjálfsmorðsbréfi sínu, sem hann birti á bloggsíðu, sagðist hann fordæma ákvörðun stjórnvalda um að leyfa fyrrnefndar giftingar.

Mynd/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×