Erlent

Atvinnuleysi meðal ungs fólks í Grikklandi mælist yfir 60 prósentum

Jóhannes Stefánsson skrifar
Ung kona gengur framhjá verslun sem hefur verið lokað
Ung kona gengur framhjá verslun sem hefur verið lokað Mynd/ AFP
Atvinnuleysi meðal grískra ungmenna á aldrinum 15 til 25 ára hefur náð nýjum hæðum og mældist yfir 60 prósentum í febrúar síðastliðnum. Atvinnuleysi í Grikklandi mælist nú 27 prósent sem er meira en tvöfalt yfir meðaltali annarra evrópulanda þar sem atvinnuleysi mælist að jafnaði um 12 prósent.

„Þetta er lang mesta atvinnuleysi meðal ungs fólks á evrusvæðinu, sem sýnir ágætlega vandamálin sem ungt fólk stendur frammi fyrir þrátt fyrir ýmsa hvata af hálfu hins opinbera til að skapa störf," sagði Nikos Magginas, hagfræðingur hjá National Bank.

Lágmarkslaun fyrir fók undir 25 ára aldri í Aþenu hafa verið lækkuð um 32 prósent niður í um 500 evrur, til þess að reyna að ýta undir ráðningar.

Grísk stjórnvöld hafa eytt um efni fram svo árum skiptir og Gríska efnahagskerfið er í molum í kjölfar efnahagshrunsins. Við bætast ýmsar skattahækkanir og niðurskurður að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Gert er ráð fyrir um 4,5 prósenta samdrætti í Gríska efnahagskerfinu á þessu ári.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á að viðvarandi skattaundanskot séu alvarlegt vandamál í Grikklandi sem geri erfiðara fyrir en ella. Þá segir hann að opinberi geirinn sé útþaninn og krefst þess að hann verið minnkaður verulega til að takast á við hina djúpstæðu efnahagskreppu.

Sjá nánar frétt Daily Mail um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×