Erlent

Móðir DeJesus gæti ekki hugsað sér betri mæðradag

Nancy Ruiz segist eiga besta mæðradag sem hún hefði getað óskað sér.
Nancy Ruiz segist eiga besta mæðradag sem hún hefði getað óskað sér. Mynd/ap
„Ég gæti ekki hugsað mér betri mæðradag,“ sagði Nancy Ruiz, móðir Gina DeJesus sem er ein þriggja kvenna sem slapp úr hryllilegri prísund Ariel Castro fyrr í vikunni, í samtali við Reuters fréttastofuna.

Mæðradagur er haldin víða í dag og loksins getur Nancy haldið upp á mæðradaginn eftir að hafa leitað dóttur sinnar í tíu ár. Eins og kunnugt er var DeJesus fangi á heimili Ariel Castro í Cleveland í áratug ásamt þeim Amöndu Berry og Michelle Knight.

Dagurinn er þó erfiðari fyrir þær Amöndu og Michelle Knight, en móðir Amöndu lést fyrir nokkrum árum síðan. Þá hefur Knight ekki viljað tala við fjölskyldu sína en í fjölmiðlum hefur komið fram að hún hafi verið beitt ofbeldi á heimili sínu í æsku.

Amanda Berry eignaðist dóttur í prísundinni og fá þær mæðgur að njóta dagsins í fyrsta skiptið frjálsar.

Daily Mail greindi frá því fyrr í vikunni að fjölskylda DeJesus hefði boðið Knight að dvelja hjá þeim eins lengi og hún vildi þegar hún treysti sér til þess að fara af spítalanum.

Komið hefur verið á fót góðgerðarsjóði sem miðar að því einu að safna fé til þess að styðja við konurnar þrjár svo þær geti hafið nýtt líf eftir hryllilega lífsreynslu. Þegar hafa 50 þúsund dollara (um sex milljónir króna) safnast saman auk þess sem fjöldi fólks hefur boðist til að hjálpa með öðrum hætti, meðal annars með því að lána sumarhús sín vilji konurnar fá frið og endurnýja krafta sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×