Fótbolti

Bayern slátraði Barcelona og mætir Dortmund í úrslitum

Það var gaman að vera Bæjari á Nývangi í kvöld.
Það var gaman að vera Bæjari á Nývangi í kvöld. Nordicphotos/AFP
Bayern München vann 3-0 sigur á Barcelona í síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Bæjarar unnu spænska risann 7-0 samanlagt í tveimur leikjum.

Lionel Messi var á varamannabekk Barcelona í kvöld sem veikti litla von heimamanna eftir niðurlæginguna í München fyrir viku. Strax frá upphafi varð ljóst að án töframannsins var möguleiki Börsunga á kraftaverki enginn.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en gestirnir reiddu til höggs snemma í síðari hálfleik. Arjen Robben skoraði þá glæsilegt mark og aftur fögnuðu Bæjarar á 72. mínútu þegar Gerard Pique skoraði sjálfsmark.

Niðurlægingin var algjör fjórum mínútum síðar þegar Frank Ribery spólaði sig upp vinstri kantinn og sendi fyrir markið. Stórleikjamaðurinn Thomas Müller var mættur á fjærstöng og stangaði knöttinn í netið.

Stuðningsmenn beggja lið klöppuðu Bæjurum lof í lófa enda engin spurning að betra liðið fór með sigur af hólmi. Samanlöguð úrslitin 7-0 eru eitthvað sem enginn í heiminum gat séð fyrir.

Bayern München mætir Borussia Dortmund í úrslitaleik á Wembley þann 25. maí. Það verður í fyrsta skipti sem tvö þýsk lið mætast í úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×