Erlent

Derrick var í SS-Panzer hersveitinni Totenkopf

Horst Tapper sem Derrick og Fritz Wepper sem Harry Klein í hinum vinsælu þáttum.
Horst Tapper sem Derrick og Fritz Wepper sem Harry Klein í hinum vinsælu þáttum.
Hinn heimsþekkti þýski leikari Horst Tappert, betur þekktur sem Derrick, var meðlimur í Waffen-SS í seinni heimsstyrjöldinni. Einnig er vitað að hann gekk í SS-Panzer hersveitina Totenkopf, sem tilheyrði Waffen-SS,  þegar sú hersveit átti í blóðugum bardögum í norðurhluta Úkraníu árið 1943.

Það er blaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung sem greinir frá þessu en það mun hafa verið rithöfundurinn Jörg Becker sem gróf þessa leyndu fortíð leikarans upp. Becker hafði samband við stofnunina Wehrmachtauskunftselle sem heldur utan um skrár yfir þá 19 milljónir hermenna sem börðust fyrir Þýskaland í fyrrgreindu stríði og fékk þar staðfest að Tappert átti að baki feril sem SS-hermaður.

Í sinni eigin ævisögu fjallar Tappert lítið um líf sitt á stríðsárinunum. Hann viðurkenndi aðeins einu sinni í viðtali við þýsk blað áður en hann lést að hann hefði þjónað sem hermaður í þýska hernum.

Tappert lék lögreglumanninn Derrick í rúmlega 280 sjónvarpsþáttum á sínum tíma en þessir þættir voru sýndir í yfir 100 löndum þar á meðal Íslandi. Tappert lést árið 2008,  þá orðinn 85 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×