Erlent

Hæsta viðbúnaðarstig á Kóreuskaga

MYND/AP
Yfirvöld í Suður-Kóreu og Japan hafa komið á hæsta viðbúnaðarstigi vegna hótana Norður-Kóreumanna.

Viðbúnaðarstigið tekur einnig til herstöðva og herafla Bandaríkjamanna á Kóreuskaga. Yfirvöld í Suður-Kóreu fullyrða að Norður-Kóreumenn undirbúi nú að skjóta tveimur eða fleiri eldflaugum á loft í dag. Þá er fullyrt að ráðamenn í Norðu-Kóreu hafi flutt hergögn og loftskeytakerfi að austurströndinni, svo að þau vísi að Suður-Kóreu og Japan.

Ekkert lát hefur verið á yfirlýsingum Norður-Kóreumanna. Það var síðast í gær sem stjórnvöld þar í landi hvöttu erlenda ríkisborgara til að flýja Suður-Kóreu enda væri von á kjarnorkustyrjöld. Áður höfðu yfirvöld lýst því yfir að ómögulegt væri að tryggja öryggi erlendra diplótama í Norður-Kóreu.

Hvað varðar hernaðarmátt og getu Norður-Kóreu er enn margt á huldu. Suður-Kóreski fréttamiðillinn Yonhap greinir frá því í dag að loftskeyti sem Norður-Kóreumenn hyggist skóta á loft í dag séu af gerðinni Musudan og Scud en það síðarnefnda var þróað af Sovétmönnum í Kalda stríðinu.

En hvað sem yfirlýsingum Norður-Kóreumanna líður heldur lífið áfram í Suður-Kóreu. Í höfuðborg landsins, Seúl, þar sem um tíu milljónir manna búa og það í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá landamærunum við Norður-Kóreu, var sem ekkert hefði í skorist í morgun þegar fólk hélt til vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×