Fótbolti

Malaga-menn með samsæriskenningar á lofti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Pellegrini, þjálfari Malaga, talaði ekki undir rós á blaðamannafundi eftir að spænska liðið datt út úr átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gær. Þýska liðið Borussia Dortmund skoraði tvö mörk í uppbótartíma og tryggði sér með því sæti í undanúrslitum keppninnar.

„Við máttum ekki eða þeir leyfðu okkur hreinlega ekki að komast áfram," sagði Manuel Pellegrini á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Eftir að við komumst 2-1 yfir í leiknum þá var engin dómgæsla í gangi. Þeir pressuðu okkur aftur með olnbogaskotum og hrindingum. Það áttu að fara tvö rauð spjöld á loft en fóru ekki og það var tvöföld rangstaða í sigurmarkinu sem átti því aldrei að standa," sagði Pellegrini.

„Það var talað um að þetta væri besta liðið í Evrópu en undir lokin treystu þeir bara á langa bolta fram. Við sitjum eftir með sárt ennið," sagði Pellegrini.

Michel Platini, forseti UEFA, er mjög óvinsæll í Malaga eftir að félagið var sett í bann frá Evrópukeppnum frá og með næsta tímabilið eftir að hafa ekki staðið við greiðslur.

„Okkur grunar að Platini og allir hinir séu á bak við þetta. Það er auðveldara að gera þetta við okkur af því að við erum Malaga en ekki Real Madrid," sagði Joaquin, leikmaður Malaga, í útvarpsviðtali á Spáni.

Það er hægt að sjá svipmyndir frá leikjunum í Meistaradeildarmörkunum frá því í gærkvöldi en þátturinn með Þorsteini Joð, Hirti Hjartarsyni og Reyni Leóssyni er aðgengilegur með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×