Erlent

Sex börn létust eftir íkveikju föðurins

Skjáskot úr breskum sjónvarpsþætti þar sem Philpott sat fyrir svörum.
Skjáskot úr breskum sjónvarpsþætti þar sem Philpott sat fyrir svörum.
Enskur faðir hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að standa fyrir því að kveikt yrði í heimili barnsmóður hans í Derby á Englandi. Sex börn hans létu lífið í brunanum.

Dómarinn í málinu sagði Mick Philpott sérstaklega hættulegan mann með enga siðferðiskennd. Philpott, sem er 56 ára gamall, mun sitja inni í að minnsta kosti fimmtán ár eftir að hafa verið fundinn sekur um manndráp á börnunum sex. Guardian greinir frá.

Philpott var einn þriggja sem kveikti í húsinu. Eiginkona hans og vinur fengu 17 ára dóm fyrir sína aðkomu að málinu. Þau munu ekki eiga kost á lausn fyrr en að hafa setið inni í að minnsta kosti hálfan dómstímann.

Dómarinn sagði að áætlunin um að kveikja í húsinu og reyna að bjarga börnunum hafi verið heimskuleg og kvikyndisleg tilraun. Slík hugsun ætti að vera fjarri öllu eðlilegu fólki.

Philpott er sautján barna faðir. Barnsmóðir barnanna sem létust hafði yfirgefið hann en Philpott ætlaði að fá hana aftur til sín. Því hafi hann ákveðið að setja á svið björgunaraðgerðina til þess að sína fram á hetjudáð.

Í dómsúrskurðinum minntist dómarinn á tilraun hans til þess að drepa kærustu sína fyrir 35 árum. Þá tilraun hafi hann ítrekað notað til þess að hræða konur yrðu þær ekki við vilja hans.

Almenningur í dómshúsinu öskraði „drepstu Mick, drepstu," þegar hann var leiddur þaðan. Á Philpott að hafa brugðist við með óviðeigandi handabendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×