Erlent

Margaret Thatcher er látin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands er látin, 87 ára að aldri. Það er breska ríkisútvarpið sem hefur þetta eftir talsmanni hennar. Að hans sögn var banamein hennar heilablóðfall.

Thatcher barónessa var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1979 - 1990. Hún varð fyrsta konan til að gegna því embætti á Bretlandi. Hún varð þingmaður árið 1959 og lét af þingmennsku 1992.

Thatcher gegndi líka embætti menntamálaráðherra árið 1970. Árið 1975 bauð hún sig svo fram í leiðtogasæti breska íhaldsflokksins gegn þáverandi leiðtoga, Edward Heath. Undir hennar stjórn vann flokkurinn þingkosningar árið 1979, 1983 og 1987. Hún átti við heilsubrest að stríða síðustu æviár sín. Thatcher var 87 ára gömul þegar hún lést.

Stórleikkonan Meryl Streep fór með hlutverk Thatchers í nýlegri mynd sem gerð var um ævi hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×