Erlent

Má ekki segja "Bingó" í hálft ár - grínaðist í eldri borgurum

Austin Whaley - BINGÓ!
Austin Whaley - BINGÓ!
Austin Whaley er ósköp venjulegur átján ára gamall drengur frá Kentucky í Bandaríkjunum. Munurinn á honum og öðrum íbúum í ríkinu er að hann má ekki segja orðið „Bingó" næstu sex mánuði.

Í byrjun febrúar síðastliðnum fór Whaley á bingókvöld þar sem nokkrir eldri borgarar voru að spila. Þegar nokkuð var liðið á kvöldið hrópaði hann „Bingó!" í miðjum leik. Það reyndist ekki vera rétt og tafðist bingókvöldið hjá gamla fólkinu um nokkrar mínútur á meðan farið var yfir spjaldið hans. Þegar það var ljóst að Whaley hefði ekki unnið, viðurkenndi hann fyrir nærstöddum að hann hafi einungis verið að grínast.

Þetta fannst spilurunum alls ekki fyndið. Málið fór svo langt að það endaði fyrir dómstólum og í síðustu viku úrskurðaði dómari í ríkinu að Whaley mætti ekki segja orðið „Bingó" í sex mánuði. Yfirvöld ákærðu hann fyrir óviðunandi hegðun og þykir hann hafa sloppið vel. Engin sekt eða fangelsisvist í þetta skiptið.

Umfjöllun Huffington Post.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×