Enski boltinn

Pistill: Rauða spjaldið ódýr afsökun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
United menn eftir að Ronaldo kom Real í 2-1.
United menn eftir að Ronaldo kom Real í 2-1. Nordicphotos/Getty
Nú þegar mesta reiðin ætti að vera runnin af grjóthörðum stuðningsmönnum Manchester United eftir tapið gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku er ekki úr vegi að átta sig á því hvers vegna liðið féll úr keppni. Ósanngjarnt rautt spjald á Nani sem breytti gangi leiksins og batt enda á Evrópudraum United segja einhverjir. Ég get ekki verið sammála því.

Vissulega hafði United spilað frábæra knattspyrnu í rúmar fimmtíu mínútur þegar rauða spjaldið fór á loft. Umdeildur dómur en knattspyrnuáhugamenn ættu að vera orðnir vanir umdeildum dómum. Þegar Gonzalo Higuain kom boltanum í netið eftir hálftímaleik flautaði dómarinn. Sóknarbrot á Ramos. Umdeildur dómur. Aftur var Higuain á ferðinni þremur mínútum eftir að rauða spjaldið fór á loft en hönd Rafael kom í veg fyrir að boltinn færi í netið. Ekkert dæmt. Umdeildur dómur.

United var á góðri siglingu þegar Nani fékk reisupassann og auðvitað var það áfall. En liðið hafði forystu. 1-0 í leiknum og 2-1 samanlagt. Hálftími til stefnu á nautsterkum heimavelli fyrir framan stuðningsmenn sem höfðu fengið skýr skilaboð að láta í sér heyra. Tólfti maðurinn stóð fyrir sínu. Einhver lið hefðu þjappað sér enn betur saman við að finnast á sér brotið en það gerðu tíu leikmenn United ekki. Á fimm mínútum tapaðist leikurinn og þrátt fyrir fín færi virtust hvorki leikmenn né stuðningsmenn hafa trú á endurkomu þeirra rauðklæddu í þeirra eigin leikhúsi kenndu við drauma.

Þar til meistaradeildarbikarinn fer á loft á Wembley þann 25. maí er bikarinn mesta prýði verðlaunaskápsins á Stamford Bridge. Chelsea fór nefnilega alla leið í fyrra þrátt fyrir að um tíma virtust öll sund lokuð. Tveimur mörkum undir, manni færri og fyrirliðalausir á útivelli gegn Barcelona skoruðu leikmenn Lundúnarliðsins tvívegis og fóru áfram í úrslitaleikinn í München sem segja má að farið hafi fram á útivelli. Liðið lék án fyrirliðans, fékk dæmda á sig vítaspyrnu, lenti undir örfáum mínútum fyrir leikslok og klúðraði fyrsta vítinu í keppninni. Mótlæti af ýmsum gerðum en liðið lyfti titlinum í leikslok. Hvort sem liðið var það besta eða ekki í Evrópu það árið átti það titilinn skilið.

Í apríl 1999 lék Manchester United til undanúrslita í enska bikarnum gegn Arsenal. Leika þurfti tvívegis þar sem fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli. Reyndar skoraði United fullkomlega löglegt mark í þeim leik sem var dæmt af vegna meintrar rangstöðu. Rangur dómur en mannleg mistök dómara sem, ótrúlegt en satt, eiga sér stað í hverjum einasta leik þótt þau veki mismikla athygli. Þreyttir United menn, sem voru í eldlínunni í þremur stærstu keppnunum, misstu fyrirliða sinn af velli með rautt spjald í síðari hálfleik rétt eftir að hafa fengið á sig mark. Ellefu leikmenn Arsenal lágu í sókn en ekki einu sinni vítaspyrna Dennis Bergkamp gat komið boltanum framhjá Schmeichel í markinu. Leikmenn United voru bornir af velli á herðum stuðningsmanna sinna eftir magnaðan sigur þar sem Ryan Giggs skoraði sitt fallegasta mark í fallega rauða búningnum.

Þetta var sigurlið. United liðið sem missti Nani af velli var það ekki. Örvænting greip um sig og virtist enginn leikmaður hafa trú á því að einvígið gæti unnist manni færri. Real gekk á lagið. Það er auðvelt að hóta tyrkneskum dómara lífláti á samskiptamiðlum þegar illa fer hjá uppáhaldsliðinu. Það var hins vegar United sem stóðst ekki prófið á Old Trafford.


Tengdar fréttir

Pistill: Gylfi og Chicharito

"Gylfi hefði ekki átt að velja peninga fram yfir spilatíma,“ er fullyrðing sem ég hef heyrt frá knattspyrnuáhugamönnum undanfarnar vikur og mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×