Fótbolti

Real áfram eftir umdeilt rautt spjald

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Dómari stórleiks kvöldsins í Meistaradeild Evrópu var í sviðsljósinu þegar að Real Madrid tryggði sér sæti í fjórðungsúrslitum keppninnar á kostnað Manchester United.

Staðan var 1-0 fyrir United þegar að tyrkneski dómarinn Cuneyt Cakir ákvað að gefa Nani, leikmanni United, beint rautt spjald fyrir brot á Alvaro Arbeloa. Nani hafði farið með fótinn í síðuna á Arbeloa en vildi meina að um óviljaverk hafi verið að ræða.

Jose Mourinho brást við með því að setja Luka Modric inn á og auka þannig sóknarkraft liðsins. Modric var ekki nema sjö mínútur að setja mark sitt á leikinn er hann jafnaði metin með þrumufleyg í stöngina og inn.

Madrídingar hömruðu járnið á meðan það var heitt og aðeins þremur mínútum síðar skoraði Cristiano Ronaldo, fyrrum leikmaður United, sigurmark leiksins með skoti úr þröngu færi eftir laglega sókn Madrid.

Ronaldo var í kvöld að spila sinn fyrsta leik á Old Trafford síðan hann var keyptur á metfé til Real Madrid árið 2009. Hann fagnaði ekki marki sínu af virðingu við sitt gamla félag.

Úrslitin voru í raun ráðin eftir þetta en United menn sóttu þó af nokkrum krafti og voru ekki langt frá því að uppskera jöfnunarmark. En leikurinn fjaraði út og niðurstaðan 3-2 samanlagður sigur Real Madrid.

United hafði komist yfir á 48. mínútu leiksins þegar að Sergio Ramos, varnarmaður Real, stýrði knettinum í eigið net. Nani sendi boltann fyrir markið og Welbeck náði að koma við boltann áður en hann fór af Ramos í markið af stuttu færi.

Wayne Rooney var óvænt á bekknum í kvöld en kom inn á 73. mínútu. Hann hressti upp á sóknarleik United en það var ekki nóg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×