Erlent

Ósáttur Banksy - „Af hverju?“

MYND/AP
Götulistamaðurinn Banksy lét til skara skríða í Haringey-hverfinu í Lundúnum í vikunni. Listamaðurinn dularfulli mótmælti því að óprúttnir aðilar hefðu skorið gamalt verk hans út úr vegg og komið á uppboð í Bandaríkjunum.

Verkið sem um ræðir heitir Slave Labour en þar má sjá unga stúlka sauma breska ríkisfánann á flaggdúk. Listaverkið, sem birtist á búðarvegg árið 2012, vakti gríðarlega athygli og Lundúnarbúar gerðu sér margir leið í Haringey til að skoða verkið.

Slíkur var ágangurinn að yfirvöld í hverfinu ákváðu að vernda listaverkið með því að fela það bak við plexígler. Íbúar í Haringey vöknuðu síðan upp við vondan draum í síðustu viku. Þá var verkið horfið.

Fljótlega bárust fregnir af því að Slave Labour væri nú falt fyrir 450 þúsund pund og það á uppboði í Miami í Bandaríkjunum. Lundúnalögreglan rannsakar nú málið en Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, kemur einnig að rannsókninni.

„Verkið hans Banksy birtist í maí síðastliðnum. Það hefur reynst mikil búbót fyrir okkur í Haringey," sagði Alan Strickland, bæjarfulltrúi. „Við vorum afar stolt af því að hafa Bansky í hverfinu og íbúar hér í Haringey eru margir í losti."

Svo virðist sem að Banksy sjálfur sé ósáttur með uppátækið. Þar sem Slave Labour var eitt sinn hefur listamaðurinn nú birt beinskeitt skilaboð til ræningjanna, það er, rotta sem spyr af hverju?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×