Erlent

Argo hreppti hnossið

Leikstjóri Argo, Ben Affleck, var klökkur þegar hann flutti þakkarræðu sína.
Leikstjóri Argo, Ben Affleck, var klökkur þegar hann flutti þakkarræðu sína. Mynd/Getty
Kvikmyndin Argo vann Óskarsverðlaun fyrir bestu mynd ársins 2012. Daniel Day-Lewis var valinn besti aðalleikari fyrir hlutverk sitt í Lincoln og Jennifer Lawrence besta aðalleikona fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Silver Linings Playbook.. Argo vann til tveggja annarra verðlauna, fyrir bestu klippingu og besta handrit byggt á áður útgefnu efni. Það var kvikmyndin Life of Pi sem hlaut flest verðlaun í kvöld, eða fjögur talsins. Leikstjóri hennar, Ang Lee, var valinn besti leikstjóri, en einnig fékk myndin verðlaun fyrir kvikmyndatöku, tæknibrellur og tónlist. Fyrir aukahlutverk hlutu þau Christoph Waltz og Anne Hathaway verðlaun. Waltz fyrir myndina Django Unchained og Hathaway fyrir Les Misérables. Django fékk einnig verðlaun fyrir besta frumsamda handrit, en Les Misérables fékk tvenn önnur verðlaun, fyrir hljóðblöndun og hár og förðun. Kvikmynd Michael Haneke, Amour, var valin besta erlenda mynd, en hún var einnig tilnefnd í flokki bestu mynda. Þá var heimildarmyndin Searching For Sugar Man valin sú besta í ár, og í flokki teiknimynda í fullri lengd var það Brave sem var hlutskörpust. Hér fyrir neðan má sjá þau Jack Nicholson og Michelle Obama forsetafrú tilkynna aðalverðlaun kvöldsins og ræður Ben Affleck og félaga í kjölfarið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×