Erlent

Daniel Day-Lewis hlaut söguleg Óskarsverðlaun

Daniel Day-Lewis skráði nafn sitt í sögubækurnar í nótt þegar hann hlaut Óskarsverðlaunin fyrir besta leik karlmanns í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Lincoln Bandaríkjaforseta í samnefndri mynd.

Þar með varð Daniel Day-Lewis fyrsti karlleikarinn í sögunni sem unnið hefur þessi verðlaun þrisvar á ævi sinni.

Hann vann áður árin 1989 fyrir My Left Foot og 2007 fyrir There Will Be Blood. Hann var einnig tilnefndur árin 1993 fyrir In The Name of The Father og 2002 fyrir Gangs of New York. Jack Nicholson hefur einnig hlotið Óskarsverðlaunin þrisvar á ævinni fyrir leik en í einu tilvika var um leik í aukahlutverki að ræða.

Katharine Hepburn hefur hinsvegar hlotið oftast verðlaun fyrir leik í aðalhlutverki eða fjórum sinnum. Meryl Streep á síðan leikarametið í tilnefningum til Óskarsverðlauna eða 17 talsins. Af öðrum verðlaunum í gærkvöldi má nefna að Argo, mynd Bens Afflecks, var valin besta myndin og Ang Lee var valin besti leikstjórinn fyrir mynd sína Life of Pi.

Quentin Tarantino fékk verðlaunin fyrir besta handritið í mynd sinni Django Unchained. Jennifer Lawrence fékk Óskarsverðlaunin í aðalleikkonuflokki fyrir myndina Silver Linings Playbook.

Verðlaunin sem besta erlenda mynd ársins komu í hlut austurríska leikstjórans Michael Hanekes fyrir mynd sína Amour en hún hefur átt góðu gengi að fagna á öðrum kvikmyndahátíðum.

Christoph Waltz fékk óskarsverðlaun fyrir besta leik karls í aukahlutverki, fyrir leik sinn í Django Unchained og Anne Hathaway fékk verðlaunin fyrir bestu frammistöðu leikkonu í aukahlutverki í myndinni Les Miserables.

Óskarsrullur Daniel Day-Lewis; í My Left Foot árið 1989, í There Will Be Blood árið 2007 og í Lincoln árið 2012.
.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×