Erlent

The Onion biðst afsökunar á ósmekklegum ummælum

MYND/AP
Bandaríski platfréttamiðillinn The Onion hefur beðist afsökunar á umdeildri færslu á Twitter þegar Óskarsverðlaunahátíðin stóð sem hæst í gærkvöldi.

Þar fór platfréttaritari The Onion ófögrum orðum um hina 9 ára gömlu Quvenzhané Wallis, sem tilnefnd var sem besta leikkona ársins. Skilaboðin fóru fyrir brjóstið á mörgum en þau má sjá hér fyrir neðan.

Forstjóri The Onion, Steve Hannah, sagði í dag að engin manneskja ætti skilið slíka meðferð, þó svo að skilaboðin hafi verið undir merkjum háðsdeilu.

Þá beindi Hannah einnig orðum sínum að Óskarsverðlaunaakademíunni og baðst afsökunar á að kastað skugga yfir uppskeruhátíð kvikmyndaiðnaðarins.

„Frú Wallis, þú ert ung og hæfileikarík og átt skilið betra," skrifaði Hannah. „Við hjá The Onion erum sannarlega sorgmædd yfir þessu hörmulega atviki."

Tilnefning Quvenzhané Wallis markaði tímamót í sögu Óskarsverðlaunanna en hún er yngsta leikkona sem tilnefnd hefur verið í flokknum leikkona ársins. Wallis bar þó ekki sigur úr býtum, heldur var það Jennifer Lawrence sem hlaut Óskarsverðlaunin í ár fyrir leik sinn í kvikmyndinni Silver Linings Playbook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×