Erlent

Mengun valdur að minni kynfærum otra - vísindamenn vara karlmenn við

Rannsóknarniðurstöður breskra vísindamanna gefa til kynna að kynfæri otra hafi almennt séð minnkað á síðustu árum. Í niðurstöðum sínum vara líffræðingarnir við því að slíkt hið saman geti gerst hjá karlmönnum.

Ástæðan fyrir þessu er rakin til mengunar, nánar tiltekið notkunar á hormónatruflandi efnum (endocrine disrupting chemicals, eða hormónahermum). Það voru vísindamenn við háskólann í Cardiff sem stóðu að rannsókninni en hún var fjármögnuð af Umhverfisstofnun Bretlands.

Þar kemur fram að bein í kynfærum otra hafa minnkað verulega á síðustu misserum. Útlit er fyrir að þessi þróun muni halda áfram næstu árin. Hormónatruflandi efni á borð við þalötin og bishenol A hafa lengi vel verið talin ógna frjósemi manna og heilsu.

Gwynne Lyons, stjórnarformaður CHEM rannsóknarstofnunarinnar, sagði rannsóknarniðurstöðurnar vera skýrt ákall til yfirvalda og einstaklinga um að binda enda á það andvaraleysi sem ríkt hefur gagnvart notkun hættulegra efna, bæði hjá dýrum sem og mönnum.

„Ef við ætlum að vernda fjölbreytileika náttúrunnar er ljóst að við þurfum á raunhæfum upplýsingum um æxlun dýr að halda," segir Lyons. „Þessi rannsókn sýnir fram á að við verðum að horfa í meira mæli á tengsl mengunarvalda og frjósemi karla."

Þá bendir Lyons á að notkun hormónatruflandi efna geti leitt til krabbameins í eistum, fækkun sæðisfruma og fleiri kvilla.

„Staðreyndin er sú að mannfólk og dýr verða bæði fyrir baðrinu á hættulegri blöndu efna sem geta leitt til alvarlegra sjúkdóma," sagði Lyons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×