Erlent

Biðst afsökunar á „blackface“-gervi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Hikind í gervinu (t.v.) og svo í vinnufötunum.
Hikind í gervinu (t.v.) og svo í vinnufötunum. Samsett mynd/AP
Ríkisþingmaður New York-fylkis, Dov Hikind, hefur beðist afsökunar á ljósmynd sem sýnir hann í „blackface"-gervi. Fréttastofa CNN greinir frá.

Ljósmyndin er talin koma frá Facebook-síðu sonar Hikind, en tilefni myndatökunnar var Purim, árleg hátíð gyðinga sem haldin var um helgina.

Yfir hátíðina klæða sumir sig í búning, og á ljósmyndinni er Hikind með sólgleraugu, krullaða svarta „afró"-hárkollu og málaður brúnn í framan.

Hikind hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir athæfið, en „blackface" er það kallað þegar hvítur maður klæðir sig upp og málar eins og þeldökkur. „Blackface" var vinsælt í farandsýningum í Bandaríkjunum á nítjándu öld og þykir í dag mjög niðrandi.

Til að byrja með vísaði Demókratinn Hikind gagnrýninni á bug, sagði hana „fáránlega pólitíska réttsýni" og sagðist einungis hafa verið að reyna að líkast „svörtum körfuboltaleikmanni".

Nú er hins vegar komið annað hljóð í strokkinn og á blaðamannafundi sagði þingmaðurinn að sér þætti „leitt ef einhver hafi móðgast", og að á Purim-hátíðinni klæði fólk sig í búninga.

Flokksfélagi Hikind, ríkisþingmaðurinn Karim Camara, segir gervið hafa verið tillitslaust og viðurstyggilegt, og að afsökunarbeiðnin ein og sér nægi ekki.

„Það er góð byrjun en við þurfum að tala betur við hann," segir Camara, og bætir við að notkun „blackface" minni á þegar þeldökkir voru lítillækkaðir í þágu skemmtunar.

Þá þykir þetta sérstaklega pínlegt í ljósi þess að fyrr í þessum mánuði gagnrýndi Hikind fatahönnuðinn John Galliano fyrir að klæðast fötum á tískuviku í New York, sem Hikind fannst niðrandi í garð trúfastra gyðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×