Erlent

Stórt draugaskip á reki um Norður Atlantshafið

Stórt mannlaust og vélarvana draugaskip rekur nú stjórnlaust um Norður Atlantshafið og getur skapað hættu fyrir skipaumferð. Hinsvegar vill enginn bera ábyrgð á þessu skipi.

Skipið sem hér um ræðir heitir Lyubov Orlova en það er rúmlega 4.200 tonna skemmtiferðaskip sem er sérbyggt til siglinga í ís enda var það notað í skemmtiferðir um norðurslóðir.

Það hafði verið kyrrsett í höfn í Kanada í tvö ár vegna skulda en var á leið í togi til Dóminíska lýðveldisins þar sem það hafði verið selt í brotajárn. Þegar dráttarbáturinn var staddur undan ströndum Nýfundnalands fyrir mánuði síðan slitnuðu dráttarvírarnir í miklu óveðri og Lyubov Orlova rak út í myrkrið.

Í frétt um málið í blaðinu National Post í Kanada segir að gervihnöttur hafi fundið skipið en það er nú statt í um 2.400 kílómetra fjarlægð vestur af ströndum Írlands.

Enginn vill bera ábyrgð á björgun þess. Yfirvöld í Kanada segja að skipið sé sér óviðkomandi enda á alþjóðlegri siglingaleið þegar dráttarvírarnir slitnuðu. Yfirvöld í Írlandi segja að þau taki afstöðu til málsins ef skipið rekur inn fyrir landhelgi þeirra.

Landhelgisgæslan hér á landi hefur eftir föngum fylgst með reki skipsins að undanförnu, ef það kynni að reka hingað til lands. Miðað við staðsetningu þess nú, og ríkjandi hafstrauma, gæti það enn rekið norðaustur fyrir landið, ef það verður ekki tekið í tog á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×