Erlent

Lést eftir hákarlaárás

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Lögreglan skaut á hákarlinn sem lét sig hverfa.
Lögreglan skaut á hákarlinn sem lét sig hverfa. Mynd/AP
47 ára karlmaður beið bana undan ströndum borgarinnar Auckland á Nýja Sjálandi eftir að hákarl réðist á hann.

Maðurinn var á sundi þegar hann var dreginn í kaf, en sjónarvottar segjast ekki vissir um hvort um fleiri en einn hákarl hafi verið að ræða.

Veiðimaðurinn Pio Mose var einn þeirra sem urðu vitni að árásinni og hann segir hákarlinn hafa verið um fjögurra metra langan. Að sögn Mose var maðurinn blóðugur í vatninu eftir fyrstu árásina og var þá dreginn aftur í kaf.

Lögreglan kom þá að ásamt björgunarmönnum og skutu á hákarlinn sem lét sig hverfa. Lík mannsins var dregið um borð í lögreglubátinn og ströndinni lokað í kjölfarið.

Ekki er vitað hvaða tegund hákarls eða hákarla var um að ræða, en hvítháfar (great white) hafa sést í sjónum við Auckland undanfarið.

Hákarlaárásir eru sjaldgæfar á Nýja Sjálandi. Aðeins ellefu mannskæðar árásir hafa átt sér stað síðan hafist var handa við að skrásetja þær árið 1847.

Sjónarvottar við Muriwai-ströndina, þar sem árásin átti sér stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×