Erlent

Læstu ógnandi nemanda inni

Sex manns hefur verið vikið tímabundið úr starfi við grunnskóla í Blackpool á Englandi eftir að nemandi sem ógnaði samnemendum sínum með hníf var læstur inni í herbergi.

Nemandinn, níu ára drengur, tók hnífinn úr eldhúsi skólans og hótaði kennurum og nemendum þar til hann var yfirbugaður og látinn sitja inni í litlu herbergi í fjörutíu mínútur á meðan hann róaði sig. Starfsmaður stóð fyrir utan herbergið og fylgdist með drengnum í gegnum glugga.

Yfirkennarinn, Cath Woodall, er meðal sexmenninganna en hún var ekki á vakt þegar atvikið átti sér stað. Eru starfsmennirnir sagðir hafa brugðist rangt við og var þeim vikið frá störfum tímabundið á meðan málið er rannsakað.

Rannsóknin hófst eftir að foreldri lét hafa eftir sér að herbergið hefði verið á stærð við bollaskáp.

Í samtali við fréttastofu Telegraph segir starfsmaður við skólann, sem þó er ekki meðal þeirra sem var vikið úr starfi, að lítið annað hefði verið hægt að gera í stöðunni. Málið snúist um það að lás sé á hurð herbergisins og því geti atvikið talist frelsissvipting samkvæmt lögum.

Afleysingafólk hefur verið ráðið til að sinna störfum sexmenninganna á meðan rannsóknin fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×