Erlent

Hundrað svipuhögg eftir nauðgun

Maldíveyjar eru vinsæll ferðamannastaður.
Maldíveyjar eru vinsæll ferðamannastaður. Mynd/Getty
Fimmtán ára gömul stúlka á Maldíveyjum í Indlandshafi hefur verið dæmd til að þola hundrað svipuhögg eftir að hafa viðurkennt við yfirheyrslur í nauðgunarmáli að hafa stundað kynlíf. Refsingin hljóðar einnig upp á átta mánaða stofufangelsi. Fréttastofa Sky greinir frá.

Faðir stúlkunnar liggur undir grun um að hafa nauðgað henni og myrt barn sem hún eignaðist í kjölfar nauðgunarinnar. Á hann yfir höfði sér 25 ára fangelsi.

Við yfirheyrslur viðurkenndi stúlkan að hafa stundað kynlíf með manni, sem ekki hefur verið nafngreindur, en kynlíf utan hjónabands er bannað með lögum á Maldíveyjum.

Dómnum verður framfylgt þegar stúlkan verður átján ára en Sameinuðu þjóðirnar og mannréttindasamtökin Amnesty International hafa fordæmt dóminn.

Þá hefur ríkisstjórn Maldíveyja hvatt dómstóla til þess að sýna stúlkunni miskunn í ljósi þess að hún sé í áfalli eftir nauðgunina.

Í september 2012 var sextán ára stúlka frá Maldíveyjum dæmt til að þola svipuhögg eftir að hafa viðurkennt kynlíf utan hjónabands, en kynlífsfélagi hennar var dæmdur til tíu ára fangelsisvistar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×