Erlent

Telja að draugaskipið gæti rekið upp að Noregsströndum

Norðmenn telja að draugaskipið Lyubov Orlova gæti endað við strendur landsins en það rekur nú stjórnlaust um Norður Atlantshafið.

Vísindamaðurinn Jon Albretsen hjá norsku hafvísindastofnuninni segir að fari svo að draugaskipið reki inn á öfluga hafstrauma milli Færeyja og Shetlandseyja muni það enda við Noreg.

Þá útilokar Landhelgisgæslan hér ekki að skipið geti rekið inn í íslenska lögsögu.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Lyubov Orlova, sem er 4.200 tonna skemmtiferðaskip, verið á reki í mánuð. Það slitnaði frá dráttarbát undan Nýfundnalandi þegar verið var að flytja það til Dóminíska lýðveldisins þar sem það hafði verið selt í brotajárn.

Enginn vill taka ábyrgð á þessu skipi en síðast þegar fréttist af því var það statt 2.400 kílómetra vestur af Írlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×