Erlent

Fann valkyrjustyttu úr silfri frá tímum víkinganna

Áhugamaður um fornleifafræði fann merkilegan grip í mold við bæinn Hårby á Fjóni. Um er að ræða litla silfurstyttu af valkyrju en talið er að styttan sé frá því um árið 800.

Forstöðumaður sögusafnsins í Óðinsvéum segir að um einstakan fund sé að ræða því þótt styttan sé aðeins 3,5 sentimetrar á hæð er valkyrjan búin bæði sverði og skildi og gefi því góða hugmynd um bæði tísku og handverk víkinganna á þessum tíma.

Áður hafa fundist leyfar af silfurverkstæðum frá víkingatímanum í grennd við Hårby.

Í frétt um málið á vefsíðu Ekstra Bladet segir að þegar sé búið að úrskurða að styttan teljist til þjóðararfs Dana. Sá sem fann styttuna á þó von á ágætum fundarlaunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×