Erlent

Óvíst um örlög Allex

Denis Allex
Denis Allex MYND/AP
Enn er óvíst um örlög franska leyniþjónustumannsins Denis Allex. Árásarsveit franska hersins reyndi í nótt að frelsa Alex úr haldi herskárra íslamísta í Sómalíu. Að minnsta kosti tveir franskir hermenn létust í áhlaupinu. Hátt í 20 íslamistar féllu árásinni.

Jean-Yves Le Drian, varnarmálaráðherra Frakklands, greindi frá árásinni í morgun. Þar sagði hann að yfirgnæfandi líkur væru á að Allex hefði fallið í árásinni. Þetta er þvert á það sem al-Shabab samtökin í Sómalíu halda fram. Í yfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að upplýsingar um afdrif Allex verði kunngerð á næstu dögum.

Frakklandsher stóð í ströngu í nótt. Flugher landsins tók þátt í aðgerðum á Malí þar sem reynt var að berja aftur stórsókn íslamista í suðurhluta landsins.

Allex var handsamaður ásamt frönskum ofursta í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu, í júlí árið 2009. Síðan þá hefur hann verið í haldi íslamista. Í október biðlaði hann til Francois Hollandes, Frakklandsforseta, um að semja um lausn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×