Erlent

NRA beinir sjónum sínum að börnum Obama

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Skotvopnasamtök Bandaríkjanna (e. National Rifle Association - NRA) kalla Barack Obama Bandaríkjaforseta hræsnara í nýrri auglýsingu sem birt hefur verið á vefsíðu á vegum samtakanna.



Í auglýsingunni gagnrýna samtökin forsetann fyrir að láta öryggisverði fylgja dætrum sínum hvert fótmál á leið sinni í og úr skólanum. Á sama tíma berjist Obama gegn því að vopnaðir öryggisverðir gæti annarra barna í skólunum. Fjölmiðlar vestanhafs benda þó á að öryggisverðir hafi gætt nánustu ættingja forseta landsins frá árinu 1917.



„Eru börn forsetans mikilvægari en þín?" segir í upphafi auglýsingarinnar. „Hvers vegna er hann fullur efasemda um að setja vopnaða öryggisverði í grunnskólana þegar hans eigin barna er gætt af vopnuðum vörðum í skólanum?"



Reiknað er með því að Obama kynni nýja áætlun um aukið eftirlit með skotvopnum vestanhafs síðar í dag. Mikil umræða hefur verið um skotvopnaeftirlit vestanhafs eftir skotárásina í Sandy Hook grunnskólanum í Newtown í Connecticut á dögunum. 27 létust í árásinni, þar af 20 börn.



Auglýsing NRA birtist á vefsíðu þar sem herferð þeirra, „Stand and fight" eða „Stöndum í fæturnar og berjumst", er í brennidepli.



Auglýsinguna má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×