Enski boltinn

Chelsea hafði betur gegn Arsenal

Stefán Árni Pálsson skrifar
Chelsea vann flottan sigur, 2-1, á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en leikurinn fór fram á Stamford Bridge.

Það snjóaði mikið í London í morgun og voru aðstæður ekki til fyrirmyndar í upphafi leiksins en það stöðvaði ekki heimamenn þegar liðið skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins sex mínútna leik.

Það var Juan Mata sem kom Chelsea yfir með fínu mark en Spánverjinn þrumaði boltanum í netið eftir frábæra stungusendingu. Aðeins tíu mínútum síðar komust heimamenn í 2-0 þegar Fram Lampard skoraði úr vítaspyrnu.

Wojciech Szczesny, markvörður Arsenal, braut á Ramires innan vítateigs og vítaspyrna réttilega dæmd. Staðan var 2-0 í hálfleik eftir algjöra einstefnu að marki Arsenal.

Arsenal byrjaði mun betur í þeim síðari og sóttu mikið á mark Chelsea. Þeir náðu að minnka muninn á 58. mínútur þegar Theo Walcott lagði boltann snyrtilega í markið eftir magnaða stungusendingu frá Santi Cazorla.

Leikmenn Arsenal reyndu hvað þeir gátu að jafna metinn en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan því góður sigur heimamanna. Chelsea er í þriðja sæti deildarinnar með 45 stig en Arsenal er í því sjötta með 34 stig.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×