Erlent

Lífvænlegt að vera í yfirvigt

BBI skrifar
Nýleg rannsókn bendir til þess að það að vera í yfirvigt geti stuðlað að lengra lífi. Rannsóknin hefur vakið hörð viðbrögð og sérfræðingar keppast um að rengja hana eða segja hana „skelfileg skilaboð".

Rannsóknin náði til 2,9 milljóna manna, þ.e. skoðaðar voru fyrri rannsóknir og dánardægur fólks borin saman við fitustuðul þeirra. Rannsóknin sýndi að þeir sem voru yfir kjörþyngd voru síður líklegir til að látast fyrir aldur fram en þeir sem voru í kjörþyngd. Þeir sem voru undir kjörþyngd eða heiftarlega feitir voru svo aftur í mestri hættu.

Rannsóknarteymið hefur vakið athygli á því að einungis var tekið tillit til dánardægurs fólks en ekki sjúkdóma eða slæmrar heilsu í lifanda lífi.

Rannsóknin fellur ekki beint í kramið hjá sérfræðingum sem segja hana illa unna eða hreinlega ranga. „Hefurðu einhvern tíma hitt hundrað ára manneskju sem er í yfirvigt? Svarið er nei, líklega ekki," sagði einn fræðimaður við fréttamann BBC.

Og fleiri fræðimenn segja rannsóknina hreinasta kjaftæði og leggja sumir áherslu á að hún feli í sér afleit skilaboð til að gefa fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×