Erlent

Flensa hrjáir Dani og fleiri íbúa á Norðurlöndunum

Mikill fjöldi Dana hefur legið í flensu yfir hátíðirnar og gat ekki mætt til vinnu í gærmorgun. Þetta er versta flensuskotið í landinu frá árinu 2009 þegar svínaflensan herjaði á Dani.

Í umfjöllun Politiken um málið segir að það séu einkum íbúar á Kaupmannahafnarsvæðinu sem glíma við flensu og einkenni hennar. Heilbrigðisyfirvöld gáfu út aðvörun um flensuna á milli jóla og nýárs en telja að ekki sé um eiginlegan faraldur að ræða.

Prófessor Jens Lundgren formaður flensunefndar Kaupmannahafnar segir að þetta sé versta flensuskot sem komið hafi upp þar í borg á síðustu árum. Nokkur fjöldi borgarbúa hafi neyðst til að leggjast inn á sjúkrahús sökum flensunnar.

Í frétt danska ríkisútvarpsins um flensuna segir að mikið álag hafi verið á símkerfi sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnanna á síðustu dögum. Þegar mest var bárust allt að 250 símtöl á hverjum klukkutíma á læknavaktirnar í Kaupmannahöfn.

Flensa herjar einnig á Svía og Norðmenn en þar er um svínaflensu að ræða og fer þeim fjölgandi sem þjást af henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×