Erlent

210.000 milljörðum eytt í hernað í fyrra

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Bandaríkjamenn eiga ellefu sinnum fleiri herflugvélar en Kínverjar, þrátt fyrir að saman dragi með ríkjunum í útgjöldum til hernaðar. fréttablaðið/ap
Bandaríkjamenn eiga ellefu sinnum fleiri herflugvélar en Kínverjar, þrátt fyrir að saman dragi með ríkjunum í útgjöldum til hernaðar. fréttablaðið/ap
Útgjöld til hernaðar í heiminum lækkuðu í fyrra, í fyrsta skipti frá árinu 1998. Útgjöldin á heimsvísu námu um 210 þúsund milljörðum íslenskra króna, eða 1.750 milljörðum dollara. Þessi upphæð er 0,5 prósentum lægri en árið 2011.

Það er alþjóðafriðarrannsóknastofnunin í Stokkhólmi sem tekur saman tölur um útgjöld til hernaðarmála. Sérfræðingar hennar segja að lækkun útgjalda megi rekja til sparnaðar í Bandaríkjunum og öðrum NATO-ríkjum. Þetta er rakið til niðurskurðar vegna fjármálakreppu og vegna minni umsvifa í Afganistan. Þrátt fyrir sparnað í vestrænum ríkjum hafa útgjöldin aukist annars staðar. Til að mynda jukust þau um 7,8 prósent milli ára í Kína og 16 prósent í Rússlandi. Mest hækkuðu útgjöldin í Óman, um heil 51 prósent.

Þetta segir stofnunin að gæti verið upphafið að breytingum á jafnvægi í þessum málum, frá ríku vestrænu ríkjunum til annarra svæða.

Bandaríkin tróna þó enn á toppi eyðslunnar og útgjöld þeirra voru um 39 prósent allra hernaðarútgjalda heimsins í fyrra. Þetta er þó í fyrsta sinn frá því að Kalda stríðinu lauk sem hlutfallið fer niður fyrir 40 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×