Erlent

Lengsta orðið - ei meir

ÞJ skrifar
Hin hljómfagra þýska tunga missti einn gullmolann úr krúnu sinni þegar  rindfleischetikettierungsueberwachungsaufgabenuebertragungsgesetz var úrelt.
Hin hljómfagra þýska tunga missti einn gullmolann úr krúnu sinni þegar rindfleischetikettierungsueberwachungsaufgabenuebertragungsgesetz var úrelt. NordicPhotos/AFP

Lengsta orð þýskrar tungu, rindfleischetikettierungsueberwachungsaufgabenuebertragungsgesetz, var strikað út úr orðabókum fyrir skemmstu þar sem ekki er lengur not fyrir það.

Orðið á við lög um heilbrigðiseftirlit með nautgripum, sem sett voru árið 1999 til að stemma stigum við kúariðu í sambandsríkinu Mecklenburg-Vestur-Pómeraníu.

Ný samræmd Evrópulöggjöf sem var sett nýlega kveður hins vegar á um að ekki sé lengur heimilt að lögbinda skoðun á heilbrigðum dýrum í sláturhúsum og ógildir því rindfleischetikettierungsueberwachungsaufgabenuebertragungsgesetz.

Þjóðverjar eru alræmdir fyrir að skeyta saman orðum í svokölluð bandormsorð, sérstaklega á sviði laga og vísinda.

Í leitinni að nýjum meistara bar orðið Donaudampfschifffahrtsgesellschaftskapitaenswitwe, Ekkja skipstjóra á skipi skipafélags sem siglir um Dóná, fyrst á góma, en þótti ef til vill helst til sértækt til að teljast almenningi nógu tamt til að rata í orðabækur.

Lengsta orðið í orðabókum nú er kraftfahrzeughaftpflichtversicherung sem á við um ábyrgðartryggingu ökutækja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×