Enski boltinn

Di Canio reiðubúinn að borga sjálfur fyrir leikmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paolo Di Canio, stjóri enska C-deildarliðsins Swindon, segist vera reiðbúinn að borga sjálfur fyrir leikmenn sem félagið er að missa.

Lánssamningar þriggja leikmanna runnu út um helgina og að öllu óbreyttu munu þeir því halda aftur til sinna félaga. Þetta eru þeir John Bostock (Tottenham), Chris Martin (Norwich) og Danny Hollands (Charlton).

Stjórnarformaður Swindon hefur þegar sagt að Di Canio muni ekki fá pening nú í janúar til að kaupa leikmenn.

„Ég mun gera allt sem ég get til að halda þessum leikmönnum. Ég er til í að borga 20-30 þúsund pund (4,1-6,2 milljónir króna) til að halda þeim eins lengi og við getum," sagði Di Canio. „Ég er viss um að við eigum meiri möguleika á að vinna með þá innanborðs."

Swindon komst upp úr D-deildinni í fyrra og Di Canio keypti fjórtán nýja leikmenn í sumar. En nú er kominn nýr stjórnarformaður hjá Swindon sem gaf það snemma út að Di Canio fengi ekki sama frelsi til leikmannakaupa og áður.

„Ég ætla ekki að setja húsin mín á Ítalíu á sölu strax en ég vil halda þessum leikmönnum. Ég verð aðeins fátækari þegar ég dey en með fleiri sigra á ferlinum," sagði Di Canio.

„Ég hef áður eytt háum fjárhæðum í lögmenn og því geturðu ímyndað þér hvað ég sé reiðubúinn að eyða í leikmenn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×