Erlent

Þrjár lífvænlegar reikistjörnur

Þorgils Jónsson skrifar
Svona gæti útsýnið verið frá einni af reikistjörnunum þremur sem um ræðir. Þrjár sólir sjást á himni. Sólin þeirra er stærst en hinar tvær væru eins og mjög bjartar stjörnur á himni að degi til.
Svona gæti útsýnið verið frá einni af reikistjörnunum þremur sem um ræðir. Þrjár sólir sjást á himni. Sólin þeirra er stærst en hinar tvær væru eins og mjög bjartar stjörnur á himni að degi til. Mynd/ESO
Hópur stjörnufræðinga gerði nýlega merka uppgötvun þegar staðfest var að þrjár reikistjörnur líklegar til þess að vera lífvænlegar hefðu fundist á braut um stjörnuna Gliese 667C í 22 ljósára fjarlægð frá jörðu. Frá þessu segir á Stjörnufræðivefnum, en notast var við tækjabúnað ESO, Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli.

Reikistjörnurnar þrjár sem um ræðir eru svonefndar risajarðir í lífbeltinu svonefnda í kringum stjörnuna, en þar eru aðstæður með þeim hætti að þar gæti verið fljótandi vatn.

Þetta er í fyrsta sinn sem þrjár reikistjörnur hafa fundist í lífbelti eins sólkerfis, en Gliese 667 er þrístirni þar sem Gliese 667C er sú daufasta, rúmlega þriðjungur af massa sólar.

Reikistjörnurnar sem um ræðir eru svokallaðar risajarðir, sem þýðir að þær eru massameiri en Jörðin, en massaminni en Úranus og Neptúnus.

Ein slík reikistjarna hafði áður fundist við Gliese 667C, en þegar farið hafði verið yfir eldri mælingar komu hinar tvær í ljós. Alls hafa sjö reikistjörnur fundist á braut um stjörnuna.

„Með því að bæta nýjum mælingum við og skoða eldri mælingar betur gátum við staðfest tilvist þriggja reikistjarna og fundið nokkrar í viðbót,“ segir Mikko Tuomi, annar forsvarsmanna rannsóknarinnar, á vef ESO og bætir við að þetta sé afar spennandi fundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×