Erlent

Kettir kunna að meta eigendur sína

Heimir Már Pétursson skrifar
Þó kettir þykist vart taka eftir eigendum sínum þá kunna þeir vel að meta þá.
Þó kettir þykist vart taka eftir eigendum sínum þá kunna þeir vel að meta þá.
Ný rannsókn á samskiptum katta og manna sem birt verður í næsta mánuði sýnir að kettir veita eigendum sínum sérstaka athygli og greina þá vel frá öðru fólki.

Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á hegðun hunda en litlar rannsóknir á hegðun katta sem fylgt hafa manninum í tíu þúsund ár. Rannsóknin sýnir að þótt kettir gegni sjaldan beinum skipunum eins og hundar geri og séu tamdir til, þá dái kettir eigendur sína. Þessi nýja og umfangsmikla rannsókn leiðir í ljós að samband eigenda og kattar er mjög svipað og samband manna við ungabörn og að þetta samband við eigandann sé kettinum mjög mikilvægt.

Rannsóknin fór fram á heimili fjölda katta. Þeir voru meðal annars látnir hlusta á hljóðupptökur af tali fólks sem kettirnir þekktu ekki og svo tali eigenda sinna að þeim fjarstöddum. Kettirnir sýndu yfirleitt lítil sem engin viðbrögð við röddum annarra en eigenda sinna eftir að hafa vanist röddum hinna ókunnugu. En þegar þeir heyrði raddir eigendanna hreyfðu þeir bæði eyru og höfuð að þeim stað sem röddin barst frá og sjáöldur augna þeirra víkkuðu sem bendir til eftirvæntingar og þess að kettirnir séu spenntir.

Þá leiðir rannsóknin í ljós að kettir reyna að fela ef þeir eru veikir eða særðir og er talið að það megi rekja til þess að í náttúrinni geti veikleikamerki reynst þeim hættulegt gagnvart öðrum rándýrum. Þess vegna sýni þeir áhugaleysi þegar þeim sé hjúkrað af eigendum sínum, eins og þeir kannist ekki við að vera veikir. Þá sé augljóst að kettir skilji eigendur sína upp að vissu marki út frá tónfalli og sömuleiðis tjái kettir sig við eigendur sína með misjöfnu tónfalli í mjálmi og mali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×